Á fjölmennum fyrsta morgunverðarfundi Náum áttum hópsins á Grand hótelinu á þessu hausti var rætt um einelti. Yfirskrift fundarins var: Eineltisáætlanir hvað svo? Guðjón Ólafsson fræðslustjóri og Þorlákur Helgi Helgason verkefnisstjóri Olweusarverkefnisins á Íslandi höfðu framsögu og svöruðu fyrirspurnum.
Báðir fyrirlesararnir lögðu áherslu á að efla þyrfti fræðslu í skólasamfélaginu um eineltisáætlanir og að þær þyrftu að vera meira en orð á blaði. Eineltisáætlanir eigi að vera í öllum grunnskólum og sýnilegar í skólanámskrám. Í þeim skólum þar sem unnið er eftir viðurkenndum aðferðum hefur náðst umtalsverður árangur. Í umræðunni kom fram vanmáttur skóla til að taka á erfiðum eineltismálum og vanmáttur foreldra að taka á einelti sem fram fer í skólum. Framsögumennirnir voru sammála um að efla þyrfti lífsleiknikennslu og þjálfa börn í að finna samkennd með öðrum.