Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir BUGL
Kreppa og geðheilsa
Í erindi sínu fjallaði Ólafur um kreppu og geðheilsu þar sem hann beindi sjónum að áhrifum efnahagskreppu á geðheilsu barna. Vísaði hann í þjóðhagsspá þar sem fram kemur að þjóðarframleiðsla og kaupmáttur mun rýrna og atvinnuleysi aukast. Á sama tíma hefur geðheilbrigðisþjónusta verið skert í ljósi niðurskurðar útgjalda og óvissa er með stuðningsúrræði sveitarfélaga og ríkisstofnanna. Þá vísaði hann í niðurstöður rannsókna í Bandarríkjunum og Finnlandi sem hafa sýnt fram á tengsl heilbrigðis og líðan barna við félagslega- og efnahagslega stöðu.  Ólafur vitnaði í ályktun Unicef frá 2007 þar sem „Hin rétta mæling á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnum sínum – heilsu þeirra og öryggi, efnislegum þörfum þeirra, menntun þeirra og félagsmótun og tilfinningu þeirra fyrir að vera elskuð, virt og hluti af þeirri fjölskyldu og samfélagi sem þau fæðast til“. Þá kom hann inn á helstu áhættuþætti varðandi geðheilsu barna í ljósi efnahagsþrenginga hér á landi en fjárhagsálag hefur áhrif á: Uppeldi, þ.e. trufluð tengsl foreldris og barns; samskipti foreldra, þ.e. árekstrar milli maka og hjónabandsdeilur; og geðheilsa foreldra, þ.e. sinnuleysi, þunglyndi, reiði og ýgi. Þá benti hann á hina verndandi þætti: Tengsl barna og foreldra (samvera, umræður/útskýringar og samkvæm mörk); félagslega öryggisnetið (fjárhagur ss. bætur og útivinnandi foreldrar, opinber þjónusta sem hefur áhrif á bætta geðheilsu foreldra og samskipti þeirra); og efld geðheilbrigðisþjónusta (heilsugæsla, sérfræði- og sjúkrahúsþjónusta).
Björk Einisdóttir, framkv.stj. Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra
Hvernig blasir staðan við ykkur og hvað getum við gert?
Björk Einisdóttir lýsti því að foreldrar leiti nú meira til landssamtakanna um ráðgjöf og þá helst vegna mála er varða andlega heilsu barna frekar en mál sem tengjast námi barnanna beint  eða námslegum þáttum og að margir foreldrar þurfi stuðning i samskiptum sínum við skólann og aðrar stofnanir. Álagið sé nú  mikið á börnum, foreldrum og starfsfólki skólanna. Hún benti á ýmis úrræði eins og að auka viðveru skólahjúkrunarfræðinga, skólasálfræðinga og námsráðgjafa því heimsóknum hefði fjölgað til þeirra.  Hjá hjúkrunarfræðingum um 35% að meðaltali  sept – nóv. 2008.  Undir andlega þáttinn falla eineltismál sem er stór hluti ráðgjafarinnar og að starfsfólk Hogs finni fyrir því að fólki vanti stuðning þegar kemur að eineltismálum í skólum. Samskipti eru oft erfið. Björk lagði áherslu á að þar sem samdráttur væri og skera ætti niður þyrfti að hafa samráð við foreldra strax í byrjun breytingaferlisins  og hafa foreldra með í ráðum. Ekki væri ráðlagt að skera niður stoðþjónustu við nemendur og að þeir sem færu með völdin ættu að  hugsa sig tvisvar um áður en ráðist er í slíkar aðgerðir og velta fyrir sér framtíðinni því afleiðingarnar geta verið kostnaðarsamar og  langvarandi. Samtökin eru mikilvægir tengiliðir í samstarfi heimila og skóla t.d. í forvörnum sem tengjast einelti og  t.d. um örugga netnotkun o.fl. Hún vék að stöðu forræðislausra foreldra gagnvart skólagöngu barna sinna, skólamáltíðum og sagði frá ályktunum og hvatningarorðum sem samtökin hafa sent frá sér að undanförnu um almenna velferð og öryggi nemenda.
Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilustöðvar
Siðrof og samfélagslegar aðstæður ungs fólks á tímum kreppu.
Þórólfur sagði frá félagsfræðilegum rannsóknum og talaði um félagsleg áhrif góðæris og kreppu. Hann skilgreindi hugtakið siðrof  þar sem fólk hættir að huga að ákveðnum gildum í samfélagðinu og minnkað traust til stofnana, stjórnunaraðila og traust til fjölmiðla hverfur.  Afleiðingarnar komu strax í góðærinu en í  kreppunni verður að vinna að því að endurheimta eða byggja upp traust svo fólk sé aftur tilbúið að lifa og taka þátt í því félagslega umhverfi sem hentar samfélaginu best á hverjum tíma.  Hann lagði mikla áherslu á nærsamfélagið í þessu tilliti og að félagsgerð grenndar-samfélagsins skipti miklu máli. Á vandanum verður að taka í nærsamfélaginu þar þarf að byggja upp aftur.