Þóra Jóns­dótt­ir, lög­fræðing­ur hjá Barna­heill­um
Á að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum? Hvað segir Barnasáttmálinn? (glærur)
Þóra Jóns­dótt­ir, lög­fræðing­ur hjá Barna­heill­um, sagði meðal ann­ars í er­indi sínu að mik­il­vægt væri  að fólk spyrji sig hvort sala áfeng­is í mat­vöru­versl­un­um sé skref fram á við þegar kem­ur að hags­mun­um barna og ung­linga eða ekki.

Þóra fjallaði um frum­varpið með til­lit til Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna sem hef­ur laga­gildi hér á landi. Vakti hún meðal ann­ars at­hygli á því að sam­kvæmt hon­um bæri stjórn­völd­um að hafa það sem væri börn­um fyr­ir bestu að leiðarljósi og tryggja þeim vernd. Lýsti hún áhyggj­um af því að óskýrt væri í frum­varp­inu með hvaða hætti ætti að tryggja að ald­urstak­mörk­um yrði fram­fylgt vegna sölu á áfengi ef frum­varpið yrði að lög­um. Benti hún á í því sam­bandi að starfs­menn versl­ana væru gjarn­an ung­menni sjálf­ir. Eft­ir­lit vín­búða rík­is­ins eins og staðan væri í dag væri mun áreiðan­legra í þeim efn­um.

Yrði frum­varp að lög­um væri gíf­ur­lega mik­il­vægt að halda uppi öfl­ug­um for­vörn­um og fylgj­ast vel með þróun mála með rann­sókn­um og skýrslu­tök­um. „En auðvitað þurf­um við í grunn­inn að spyrja: Er það aft­ur­för í vernd barna að stíga þetta skref? Þess leit­um við svara nú og við þurf­um að svara þeirri spurn­ingu á skýr­an hátt, hlusta á hvert annað og muna að við erum ábyrg fyr­ir því að börn haldi þeirri vernd sem við höf­um þó náð fram.“ Þá yrði enn­frem­ur nauðsyn­legt að viðhalda banni við áfengisaug­lýs­ing­um.

Hildigunnur Ólafsdóttir, Reykjavíkur Akademíunni     
Hvað segja rannsóknir:  Aukið aðgengi eykur áfengisneyslu. (glærur)
Hildigunn­ur Ólafs­dótt­ir af­brota­fræðing­ur flutti einnig er­indi á fund­in­um um rann­sókn­ir á auknu aðgengi að áfengi. Tók hún dæmi frá ýms­um lönd­um þar sem rann­sókn­ir sýndu að áfeng­isneysla yk­ist við það að heim­ila mat­vöru­versl­un­um að selja áfengi. Þar á meðal frá Banda­ríkj­un­um, Kan­ada, Nýja Sjálandi, Finn­landi og Svíþjóð. Rann­sókn­ir á eins­leit­um sam­fé­lög­um sýndu að neyslu­mynst­ur allra breytt­ist.

„Þeir sem drekka mest auka neysl­una mest enda sækj­ast þeir meira eft­ir áfengi en aðrir. Menn­ing­ar­leg­ar og sam­fé­lags­leg­ar aðstæður hafa áhrif á það hvaða hóp­ar auka neysl­una meira en aðrir og þeir hóp­ar sem hafa fundið mest fyr­ir höml­um þeir munu vænt­an­lega auka mest neysl­una þegar höml­urn­ar hverfa,“ sagði Hildigunn­ur. Þá væri þekkt að auk­in áfeng­isneysla hefði í för með sér meiri heil­brigðis­vanda í fé­lagi við fé­lags­leg­ar af­leiðing­ar.

„Þær eru þó ekki endi­lega þær sömu fyr­ir alla og okk­ur vant­ar meiri þekk­ingu á því hverj­ir eru í raun næm­ast­ir fyr­ir þeim og hvaða hóp­ar eru viðkvæm­ast­ir,“ sagði hún. Áfeng­isneysla á heim­il­um myndi vænt­an­lega aukast hér á landi þar sem slík neysla færi mest fram þar hér á landi. Þá fyr­ir fram­an börn. Frá lýðheilsu­sjón­ar­miðum væri versl­un með áfengi og önn­ur vímu­efni best fyr­ir komið í hönd­um rík­is­ins. Hún úti­lokaði sam­keppni á markaði og kæmi í veg fyr­ir að einkaðilar hefðu hag af meiri áfeng­is­sölu.

Árni Guðmundsson, M.Ed Félagsuppeldisfræði HÍ    
Er það skref til framtíðar að „BÓNUSVÆÐA“ áfengissölu? (glærur)

Frum­varp til laga um að heim­ila sölu áfeng­is í mat­vöru­versl­un­um hef­ur ekk­ert með vel­ferð barna að gera og snýst fyrst og fremst um ítr­ustu viðskip­hags­muni.
Árni spurði þeirr­ar spurn­ing­ar í upp­hafi er­ind­is síns hvort rétt væri að „bónusvæða áfeng­is­sölu“ og svaraði því neit­andi. Benti hann á að í frum­varp­inu væri þau rök færð fyr­ir sölu áfeng­is í mat­vöru­versl­un­um að þær seldu þegar tób­ak. Sagði hann ljóst að sala mat­vöru­versl­ana og annarra einka­rek­inna versl­ana væri ekki í góðum mál­um.
Vísaði hann í út­tekt­ir sem sýndu að börn og ung­ling­ar ættu ekki erfitt með að verða sér úti um slík­ar vör­ur. Vín­búðum rík­is­ins væri miklu bet­ur treyst­andi fyr­ir að selja ekki ung­menn­um áfengi. Ekki síst þar sem starfs­fólk versl­ana væri að stóru leyti ung­ling­ar.
Gagn­rýndi hann frum­varpið og grein­ar­gerðina með því fyr­ir að fjalla á eng­an hátt um vel­ferð barna. Grein­ar­gerðin sner­ist ekki um annað en viðskipta­hags­muni. Gerði hann enn­frem­ur að um­tals­efni orðalag í henni um meint nei­kvæð áhrif þess að leyfa sölu áfeng­is í mat­vöru­versl­un­um. Ljóst væri að höf­und­ur henn­ar hefði ekki kynnt sér nein­ar rann­sókn­ir í þeim efn­um. Slíkt orðalag væri ekki boðlegt að hans mati í grein­ar­gerð með laga­frum­varpi sem lagt hefði verið fram á Alþingi.
Árni ræddi einnig um áfengisaug­lýs­ing­ar en frum­varpið hefði vænt­an­lega þau áhrif að þær yrðu leyfðar yrði það að lög­um. Sagði hann for­eldra­sam­fé­lagið varn­ar­laust gagn­vart „boðflenn­um í líf barna og ung­linga“ og vísaði þar til slíkra aug­lýs­inga. Hafnaði hann þeirri skoðun sem hann sagðist stund­um heyr­ast að aug­lýs­ing­ar á vör­um ættu rétt á sér á grund­velli tján­ing­ar­frels­is­ins. Hæstirétt­ur hefði þegar úr­sk­urðað að aug­lýs­ing­ar væru áróður en ekki hluti af lýðræðis­legri umræðu.
Markaðsvæðing áfeng­is, ekki síst gagn­vart börn­um og ung­l­in­um með aðstoð fremstu ímynd­ar­sér­fræðinga og aug­lýs­inga­fólks auk gríðarlegs fjár­magns, hefði þannig ekk­ert með lýðræðis­lega umræðu að gera að hans sögn. Um væri að ræða ein­hliða, keypt­an áróður sem byggði á ítr­ustu viðskipta­hags­mun­um en ekki vel­ferð barna og ung­linga. Lauk hann er­indi sín­um með þeim orðum að nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag varðandi sölu áfeng­is væri gott og frum­varpið væri ein­ung­is skref aft­ur á bak yrði það að lög­um.